Íslensk-bandaríska jarðvarmafyrirtækið Reykjavík Geothermal hefur komist að samkomulagi við stjórnvöld í Eþíópíu um að byggja upp og reka allt að þúsund megawatta jarðvarmaorkuver. Fjárfestingin nemur fjórum milljörðum dollara nánast 500 milljörðum króna.
Samningurinn sem ríkisstjórn Eþíópíu tilkynnti um í dag hefur verið tvö ár í undirbúningi. Samkvæmt honum á Reykjavík Geothermal að byggja og rekja allt að þúsund megawatta jarðvarmaorkuver í tveimur áföngum. Fyrsta skrefið verður bygging jarðvarmaorkuvers á háhitasvæði í Corbetti öskjunni í Suður-Eþíópíu. Áætlanir ganga út á að þar verði hafin tíu megawatta orkuvinnsla eftir tvö ár, hundrað megawött ári síðar og 500 megawött þegar jarðvarmaorkuverið verður komið í fullan rekstur árið 2018. Corbetti er virk eldstöð og aðstæður þar svipaðar og víða á Íslandi.
Reykjavík Geothermal var stofnað fyrir fimm árum. Að því stóðu íslenskir jarðhitasérfræðingar sem höfðu margir hverjir unnið hjá Orkuveitu Reykjavíkur. Þeirra á meðal er Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitunnar.
Til marks um hversu stórt verkefnið er má nefna að uppsett afl Hellisheiðarvirkjunar er 303 megawött í rafmagni og 133 megawött í varmaafli. Þó er hægt að stækka varmastöðina í 400 megawött í framtíðinni.
Nýta tíunda hluta óbeislaðs jarðvarma í Eþíópíu
Aðstoðarforsætisráðherra Eþíópíu og stjórnarformaður ríkisrekna orkufyrirtækisins EEPCO fagnar samkomulaginu í yfirlýsingu. Hann segir þetta mikilvægt skref í átt að því markmiði að fyrirtækið verði í fararbroddi í orkuöflun og -útflutningi í Austur-Afríku. Hann segir Eþíópíu ráða yfir tíu þúsund megawöttum af óbeisluðum jarðvarma. Samkvæmt því fellur það í hlut Reykjavík Geothermal að virkja tíunda hluta þeirrar orku.
http://www.ruv.is/frett/gerdu-500-milljarda-samning-i-ethiopiu